Tengsl
Tengsl - E Sjó Sjó
Art exhibition in an old fishfactory in Akranes, locaded in a former box storageroom.
Curator: Sara Hjördís Blöndal.
Artists: Sara Björk Hauksdóttir, Jökull Svavarsson, Eyrún Jónsdóttir og Unnur Jónsdóttir.
Graphic design: Sigríður Ylfa Arnarsdóttir.
Exhibition text
Í nútíma samfélagi erum við stanslaust tengd, tengd við tæki, hvort öðru í gegnum tækni, samtengd öllum heiminum. Tengingar umlykja heiminn og byggist heimsmynd okkar upp á hversu vel tengd við erum. Hér á landi er tenging okkar við umheiminn háð tækni sem liggur á hafsbotni og er viðkvæmari nú sem aldrei fyrr.
Með auknum hraða í samfélaginu er gott að staldra við, jarðtengjast, tengjast náttúrunni, nærumhverfinu, fólkinu. Tengingar hjálpa okkur að tilheyra og umbera, víkka skilning á hlutum og aðstæðum, hvort öðru. Gera okkur auðmjúk, skilningsrík, umburðarlind. Tengsl hjálpa okkur að muna.
Grunnstoðir heilans verða til við tengslamyndun og einn mikilvægasti þáttur við mótun hans eru samskipti, sambönd, skilningur á umhverfi, tengsl við tungumál. Við tjáum okkur við aðrar lifandi verur með hljóðum, orðum, babbli, tungumálum. Góð samskipti hjálpa til við tengslamyndun líkt og samlífi orkideu og trés.
Tengsl okkar við hina ýmsu hluti, staði, lykt, manneskjur og hljóð eru alls konar. Spennandi, góðar, erfiðar, áhugaverðar, skemmtilegar, leiðinlegar, nýjar, broslegar. Alveg frá fæðingu förum við að mynda tengsl, tenslamyndu er áhugaverð, hverju tengjumst við?
Afhverju?
Afhverju höldum við í sumar þeirra en aðrar ekki?
Er það einungis mennskt fyrirbæri að tengjast? Tengjast tilfinningalega?
Hvernig geta tengsl okkar við lykt kallað fram einstakar minningar, minningar um fólk, staði, viðburði? Minningar um tengsl við einstaklinga, hluti, staði, ástvini sem ekki lengur eru.
Tengsl eru margvísleg og marglaga. Listamennirnir sem sýna í sýningunni Tengsl eru ekki einungis tengd fjölskylduböndum og öll alin upp hér á Akranes, heldur hafa þau öll líka á einhverjum tímapunkti unnið í þessu húsi. Tengja það við mismunandi tíma í sínu lífi og lífi hússins.
Byggingin sem sýningin fer fram í var eitt sinn fiskvinnsla, en hefur nú verið breytt í nýsköpunarsetur. Sýningarsalurinn sem myndlistasýningin Tengsl – E Sjó sjó fer fram í var umbúða og kassageymsla vinnslunnar og má ennþá finna hér fyrir kulda og heyra í vinnslutækjum fortíðar. Tengingar íbúa bæjarins við þessa byggingu eru miklar og vel flestir einhverja sögu að segja, minningu til að deila um liðinn tíma og horfnar tengingar.
Við innkomu í sal Kassageymslunnar blasa við verk Unnar Jónsdóttur. Þrjú stór útskorin tréverk í svörtum og brúnum litum hanga úr loftinu, þar sem Unnur skoðar fjölskylduna, ættartengsl og sambönd. Tengslin setur hún fram með kalígraphíu og geometrískum forumum þar sem hver lína, form og punktur hefur sérstaka merkingu fyrir listakonunni. Manneskjan sem fyrirbæri og mennskan eru Unni afar hugleikin viðfangsefni og setur hún sín persónulegu fjölskyldutengsl fram í verkunum Fortíð, Nútíð og Framtíð. Tengingar við hið liðna, hið óþekkta og það sem er.
Sara Björk Hauksdóttir leikur á flest skilningavit áhorfandans. Verkið Hnerra/snýta líður um miðjan salinn og flæðir upp veggi hans. Verkið leikur á lyktarskyn og tengslin við einstaka lykt, lykt ákveðinnar kynslóðar sem er hverfandi. Hún spilar með þau áhrif sem einstök lykt hefur á okkur, hvernig lyktin ein og sjálf getur kallað fram athafnir liðinna tíma sem fá okkur til að staldra við og rifja upp sögur um horfin augnablik. Augnablik sem ef til vill tengjast fjórfætlingum sem og farartækjum líkt og verkin Rúgbrauð og Hreingerning kalla fram. Sara Björk leyfir áhorfandanum ímynda sér verkið Rúgbrauð keyra um salinn að vild líkt og Wolkswagen rúgbrauðið hefði skautað um götur bæjarins hér á árum áður. Hreingerning lætur hugann reika til liðinna leikfélaga sem eitt sitt áttu hug okkar allan.
Verk Eyrúnar Jónsdóttur hanga úr lofti Kassageymslunnar svo þau virðast svífa frá jörðinni. Einstakt samband alkohólbleks, resíns og plexíglers myndar verkin og flæðir eitt efnið í annað á ófyrirsjáanlegan hátt og taka sérstæð, lífræn form á hörðu glerinu. Blekið minnir á skýjabólstra sem svífa um og blandast hafinu sem hér er í resínformi, skýjabólstrarnir í hliðstæðum veruleika sem við gónum á upp í himninum og ímyndum okkur að taki önnur form og kalla fram minningar meðan öldurnar leika undir. Eyrún skoðar hér tengsl sín við liti og hvaða tilfinningar þeir vekja hjá henni líkt og má sjá í verkinu Esjó þar sem guli liturinn vísar í litinn á húsinu þar sem amma hennar og afi bjuggu á Esjuvöllum 10 Akranesi. Á sjó myndar tígul og hangir úr loftinu og snýst líkt og jörðin.
Jökull Freyr Svavarsson vinnur með figúratív form með Bakverk, Höfuðverk og Myrkraverk. Þó að Jökull hafi verið skammaður í skóla fyrir að vera of figúratívur og teikna dreka, skrímsli, hauskúpur og vöðvastælta líkama velur hann það sem viðfangsefni í verkunum í sýningunni. Jökull skoðar þau áhrif sem tónlist hefur á einstaklinga, hvernig tilfinningarlegt mynni okkar við tónlist, hljóð, takt skapar okkur.