top of page
Christmas Adventure in Akranes

 

Árið 2016 kviknaði sú hugmynd hjá Hlédísi Sveinsdóttur og mæðgunum Söru Hjördísi og Margréti Blöndal að gaman væri að búa til jólaævintýri fyrir börn á Akranesi. Strax í upphafi var ákveðið að ævintýrið væri ætlað þeim sem vita að jólasveinar eru til og aðstandendum þeirra. Ákveðið var að fyrsta jólagleðin yrði í Garðalundi þann 16. desember kl. 20.00 því töfrarnir fólust meðal annars í því að fara út eftir kvöldmat í svartasta skammdeginu, dúðaður með vasaljós að leita að jólasveinum. Í skógræktinni tóku sögumaður og risaskógarmús á móti þátttakendum og þar mátti líka finna súkkulaðiálfa, harmonikkutröll og jólaköttinn að ógleymdum jólasveininum. Þær stöllur Jólasveinurnar eru bjartsýniskonur og bjuggust við allt að 250 gestum, jafnvel 300 ef sérlega vel tækist til. Það er hins vegar skemmst frá því að segja að gestafjöldinn fór langt yfir þau bjartsýnismörk og kunnugum taldist til að hátt í 2000 gestir hefðu lagt leið sína í Garðalund þetta desemberkvöld. Þetta þýddi auðvitað að aðeins hluti gestanna gat fylgt sögumanni á leið hans um skóginn en það kom ekki að sök. Þær fjölskyldur sem ekki heyrðu söguna gripu bara til þess ráðs að búa til eigin ævintýri og allir náðu að hitta bæði jólasveininn og jólaköttinn. Þessari fyrstu jólagleði lauk með því að kveikt var Ljósunum hans Gutta og Kór Grundaskóla söng Bráðum koma blessuð jólin ásamt Felix Bergssyni sögumanni og jólasveininum og gestir tóku vel undir. Viðbrögðin voru í einu orði sagt frábær en kölluðu á nýja útfærslu sem hentaði þeim fjölda sem greinilega hafði áhuga á að koma og njóta jólagleði í skógræktinni á aðventunni. 

Fjölmargir hafa lagt Jólagleðinni lið á undanförnum árum og segja má að allir þeir sem leitað hefur verið til hafi verið boðnir og búnir að leggja sitt af mörkum til að gera gleðina sem mesta og besta. Það er ómetanlegt og allt þetta fólk á hjartans þakkir skildar. 

Í haust var ljóst að ekki yrði viturlegt og jafnvel óleyfilegt að stefna saman fjölda fólks á sama tíma á einn stað og því þurfti aftur að finna nýja útfærslu sem hentaði hinum margumtöluðu fordæmalausu tímum. Það tókst og enn og aftur verður haldin Jólagleði í Garðalundi sem hefur sömu markmið og áður sem er að færa fjölskyldum á Akranesi töfrandi og ævintýralega jólastund í skógræktinni. 

 SARA BLÖNDAL 
SCENOGRAPHER & CURATOR

bottom of page